Personal tools
A Network of Excellence forging the
Multilingual Europe Technology Alliance

META-FORUM 2011 - Press Release


Eru tungumál Evrópu í hættu?

Frá META-FORUM 2011 berast bæði hættumerki og bjartsýn boð

META-FORUM, sem haldið verður í Búdapest í Ungverjalandi 27.-28. júní, er alþjóðleg ráðstefna um öfluga tækni fyrir margmála evrópskt upplýsingasamfélag og jafnframt hluti af opinberri dagskrá ungverskrar formennsku í framkvæmdastjórn ESB

Fjölbreytni menningar og tungumála er aðalsmerki evrópskrar samvinnu. Innan Evrópusambandsins eru 23 opinber tungumál, en alls eru um 60 tungumál töluð í álfunni þegar svæðisbundin tungumál eru talin með. Miðlun upplýsinga til almennra borgara, viðskiptafélaga, neytenda og ferðamanna vex hröðum skrefum. Munu fyrirtæki og stjórnvöld ráða við að þýða þetta mikla textamagn á 23 eða 60 tungumál? Milli 23 tungumála eru 506 pör upprunamáls og markmáls, milli 60 tungumála eru pörin 3540. Vitanlega höfum við ekki efni á að fórna mállegum fjölbreytileika okkar. En höfum við efni á að halda í hann?

Með Evrópusamvinnunni er unnið að því að fjarlægja hindranir í vegi fólks, varnings og fjármagns. Netið leyfir frjálst flæði upplýsinga og mannlegt mál er eini miðillinn sem geymir og deilir þekkingu mannkynsins, og þjónar þannig sem efnið í vefnum. En þessi vefur er samsettur úr mörgum tungumálum og efni á öðrum málum en ensku vex mjög hratt. Eina hindrunin sem eftir er í vegi frjáls flæðis hugmynda og hugsunar eru þau skil sem tungumálin mynda. Risavaxin markaðstækifæri eru ónýtt vegna slíkra skila. Í nýlegri skýrslu UNESCO um margmæli er sagt að tungumál séu meginmiðill ýmissa grundvallarmannréttinda, svo sem tjáningar stjórnmálaskoðana, menntunar og þátttöku í samfélaginu.1 Meðvitaðir þjóðfélagsþegnar eru farnir að nota félagsmiðla á netinu til fjörugra samræðna um brýn samfélagsmál á borð við tryggingu sjálfbærrar orku, umbætur á fjármálakerfinu og glímu við lýðfræðilegar breytingar, en þessar umræður eru enn takmarkaðar við einstök tungumál. Eigi rafrænt evrópskt lýðræði að ganga upp þarf það að ná yfir mörk tungumála.

Þess er vænst að máltækni sjái okkur fyrir aðferðum til að komast yfir hindranir milli tungumála. Á undanförnum fáeinum árum hafa orðið verulegar framfarir í vélrænum þýðingum. Þrátt fyrir það eru bæði rannsóknir og þróun enn allt of hægfara og ósamhæfð til að leysa tungumálavanda okkar nægilega fljótt. Af augljósum efnahagslegum ástæðum miðast megnið af rannsóknum og þróun við ensku. Alvarlegur skortur á auðlindum hrjáir meirihluta evrópskra tungumála og sum þeirra hafa næstum algerlega verið vanrækt. Í þessum skilningi eru tungumál okkar ekki tilbúin undir framtíðina.

Á META-FORUM 2011 verður gerð grein fyrir niðurstöðum skýrslna um 30 Evróputungumál þar sem lýst er stöðu hvers máls fyrir sig á stafrænni öld. Á ráðstefnunni koma saman fulltrúar afburða evrópskra rannsóknasetra, stórra og smárra tæknifyrirtækja, þýðingaþjónusta og annarra notenda máltækni, málsamfélaga, og stefnumótandi aðila sem bera ábyrgð á stuðningi við rannsóknir og nýsköpun.

Fundurinn er skipulagður af META-NET, öndvegisneti sem samanstendur af 47 rannsóknasetrum í 31 landi og fjármagnað er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. META-NET vinnur að uppbyggingu tæknibandalags um margmála Evrópu (Multilingual Europe Technology Alliance) til að sameina vísindamenn á tæknisviðinu, framleiðendur og neytendur í stóru evrópsku átaki til rannsókna og nýsköpunar. Fulltrúar rúmlega 280 samtaka frá 40 löndum hafa nú þegar gengið til liðs við bandalagið.

Í setningarávarpi sínu mun Zoran Stančič, aðstoðarframkvæmdastjóri upplýsingasamfélags og fjölmiðla í framkvæmdastjórn ESB, setja fram skýrar væntingar: „Í Evrópusambandinu höfum við að miklu leyti upprætt landamæri, en þrátt fyrir það eru enn margir þröskuldar eftir, þar á meðal munur tungumála. Aðgengi að upplýsingum á öllum tungumálum er nauðsynlegt til að auka dreifingu á vörum og þjónustu og til að flýta fyrir því að til verði einn samfelldur stafrænn markaður. Ég trúi því staðfastlega að Evrópa geti þróað áfram forystu sína á sviði máltækni og skilað lausnum sem gagnast evrópsku samfélagi og efnahagslífi í heild. En eina leiðin til að ná þessu fram er að sameina kraftana og byggja upp sterkt samstarf allra hagsmunaaðila. Hlutverk máltækni í framtíðarskipan rannsókna og nýsköpunar í Evrópu mun ráðast mjög af því hvort sviðinu tekst at tala einni röddu.“

Þátttakendur í META-FORUM munu ræða framtíðarsýn og fyrstu áætlanir um fyrirhugað tækniátak. Í vinnu innan þriggja rýnihópa og opinni vefumræðu hafa sérfræðingar frá yfir 100 fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum þegar mótað djarfa framtíðarsýn um rannsóknir á næstu árum og öflugan máltæknibúnað sem mun breyta starfi okkar og daglegu lífi. Þessi framtíðarsýn verður kynnt og rædd á ráðstefnunni í Búdapest. Hin sameiginlega sýn mun þjóna sem útgangspunktur fyrir stefnumótandi rannsóknaráætlun en fyrstu drög hennar verða einnig rædd á META-FORUM. Hans Uszkoreit, stjórnandi META-NET, hefur sagt: „Með réttri framtíðarsýn, þátttakendum og stefnuskrá getum við tryggt framtíð evrópskra tungumála og samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar á lykilsviði tæknilegs vaxtar. Kostnaðurinn við þetta átak þarf ekki að vera hærri en kostnaður við 100 kílómetra hraðbraut í nýju aðildarríki.“

Hið fyrirhugaða stórátak mun ekki aðeins að bæta sjálfvirkar þýðingar heldur einnig skapa tækninýjungar sem nýtast í margvíslegum öðrum búnaði. Í dag er almennt viðurkennt að máltækni sé eitt helsta vaxtarsviðið innan upplýsingatækni. Stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Google, Microsoft, IBM og Nuance hafa fjárfest verulega á þessu sviði. Í Evrópu hafa hundruð lítilla og meðalstórra fyrirtækja sérhæft sig í margs konar máltæknibúnaði eða þjónustu. Máltækni gerir fólki kleift til að vinna saman, læra, stunda viðskipti og miðla þekkingu yfir landamæri tungumála og óháð tölvufærni.

Nú þegar getur máltækni liðsinnt okkur við ýmis hversdagsleg verkefni, svo sem að skrifa tölvupóst eða kaupa farmiða. Við njótum góðs af máltækni við leit á vefnum og þýðingu vefsíðna; þegar við notum stafsetningar- eða málfarsleiðréttingarforrit í ritvinnslukerfum; þegar við stýrum afþreyingarbúnaði bílsins okkar eða farsímanum okkar með raddskipunum; þegar við þiggjum ráðleggingar í netbókabúð; eða förum eftir töluðum leiðbeiningunum leiðsögubúnaðar. Í náinni framtíð munum við geta talað við bæði tölvuforrit og ýmiss konar vélar og búnað, þ.m.t. langþráða vélþjóna sem koma til starfa á heimilum okkar og vinnustöðum áður en langt um líður. Hvar sem við erum stödd munum við einfaldlega spyrjast fyrir þegar við þurfum á upplýsingum að halda, og þegar við þörfnumst aðstoðar munum við kalla eftir henni. Veröld okkar mun breytast við það að hindranir á samskiptum milli fólks og tækni verða fjarlægðar.

Á META-FORUM munu lykilfyrirlesararnir Thomas Hofmann frá Google í Evrópu og Bran Boguraev frá IBM í Bandaríkjunum gera grein fyrir tækniframförum og áætlunum í hinum stóru alþjóðlegu fyrirtækjum sínum. Nokkrir fremstu vísindamenn Evrópu á sviði máltækni munu gefa yfirlit um stöðu mála, upplýsa um nýja uppgötvanir og segja frá árangursríkum evrópskum rannsóknum. Fulltrúar stórra notenda máltækni, svo sem þýðingaþjónustu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Daimler Corporation og Vodafone munu tala um gagnsemi máltæknibúnaðar og gera grein fyrir þörfum sínum.

Þriðjudaginn 28. júní 2011 verða veitt verðlaun (META-Prize) fyrir framúrskarandi rannsóknir, tækni og þjónustu fyrir hið margmála evrópska upplýsingasamfélag, og kynntar verða nokkrar viðurkenningar (META-Seals of Recognition) fyrir nýsköpun á sviði margmála vöru og þjónustu. Á iðnsýningu sem haldin er samtímis meginráðstefnunni verða kynningar og sýningar frá stórum og smáum fyrirtækjum sem starfa á gervöllu máltæknisviðinu og sýnidæmi um nýjar niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem ESB hefur styrkt.

Í tveimur ríkjum með margmála samfélagi – Indlandi með sín 19 „opinberu“ tungumál og Suður-Afríku með 11 þjóðtungum – eru kerfisbundnar máltækniáætlanir í gangi. Á META-FORUM verða þessar áætlanir kynntar, ásamt rannsóknaráætlunum ESB og einstakra ríkja. Vandamál margmála samfélaga og auðlindalítilla Evrópumála, sem og aðferðir til að leysa þau, verða borin saman og rædd í tvennum pallborðsumræðum.

Forsenda fyrir gerð velheppnaðs máltæknibúnaðar er söfnun og greining mikilla málgagna, svo sem ritaðra texta og upptakna á tali. Önnur forsenda er að fyrir liggi málgreiningartækni fyrir hvert tungumál. Á ráðstefnunni í Búdapest kynnir META-NET nýja þjónustu til að deila og viðhalda slíkum auðlindum, META-SHARE, sem mun auðvelda stórum bæði rannsóknir og þróun. Tilvist og gæði mállegra auðlinda er mismunandi eftir tungumálum og fer eftir efnahagslegu mikilvægi málanna, erfiðleikastigi þeirra í sjálfvirkri vinnslu og hversu miklar rannsóknir á þeim liggja fyrir. Áður en málskýrslur META-NET voru gerðar hafði enginn metið stöðu tæknilegs stuðnings við evrópsk tungumál. Nú getur META-NET sýnt hvers vegna flest tungumál standa frammi fyrir alvarlegum vandamálum, og bent á alvarlegustu eyðurnar í nauðsynlegum gögnum og búnaði.

Helstu skilaboð META-FORUM 2011 eru þessi: Þrátt fyrir að ESB og aðildarríki þess hafa þegar styrkt fjölmörg einstök rannsóknarverkefni heldur tæknibilið milli „stórra“ og „lítilla“ mála enn áfram að breikka. Hingað til hefur ekki verið gert nægilega stórt og samræmt átak í Evrópu til að byggja upp þau gögn og tækni sem vantar og til að yfirfæra tækni til meirihluta tungumálanna. Ýmis sterk rök eru fyrir því að ráðast til atlögu við þetta risastóra verkefni með sameiginlegu átaki ESB, aðildarríkjanna og iðnfyrirtækja, þ. á m. hár kostnaður á mann í litlum málsamfélögum; nauðsyn á yfirfærslu þekkingar milli tungumála; samvirkni málgagna, máltækja og þjónustu; og sú staðreynd að mörk málsvæða fara ekki alltaf saman við landamæri ríkja. Evrópa verður að grípa til aðgerða til að búa tungumál sín undir hina stafrænu öld. Tungumálin eru dýrmætur hluti af menningararfi okkar og eiga því skilið að vera búin undir framtíðina.1 UNESCO Director-General, Intersectoral mid-term strategy on languages and multilingualism, Paris, 2007 (http://unesdoc.unesco.org/image/0015/001503/150335e.pdf).