Personal tools
A Network of Excellence forging the
Multilingual Europe Technology Alliance

META-SHARE

META-SHARE-Logo.png

 

Gífurleg fjölbreytni og sundurleitni þess mikla magns sem nú er til af stafrænum gögnum (útgáfum, gagnasöfnum, margmiðlunarskrám, vinnsluforritum, þjónustum og búnaði) hefur gerbreytt kröfum til geymslu þeirra, birtingar, uppgötvunar og langtímaiðhalds. Stafrænir gagnabrunnar leggja til innviði til að lýsa þessum upplýsingum, skrá þær, vista, varðveita og gera aðgengilegar á opinn, notendavænan og öruggan hátt. Í gagnabrunnum birtist þróun frá stafrænum bókasöfnum í átt að opnum aðgangi, þróuðum leitarmöguleikum og víðtæku dreifðu skipulagi.

META-SHARE stefnir að því að leggja til opna, dreifða, örugga og samvirka innviði fyrir máltæknisviðið. Opna, því að innviðirnir eru hugsaðir sem grunnur í stöðugri þróun sem sníður sér stakk eftir vexti og hefur að geyma gögn og búnað sem ýmis er ókeypis eða fáanlegt gegn gjaldi; dreifða, vegna þess að þeir munu samanstanda af nettengdum gagnageymslum sem verða aðgengilegar um sameiginlegt viðmót; samvirka, vegna þess að grunnurinn fylgir stöðlum og leitast við að vinna bug á erfiðleikum vegna mismunandi forms, orðanotkunar og merkingar; örugga, vegna þess að stjórn innviðanna byggist á traustum lagalegum grunni, og tryggt er að farið sé að lögum og reglum og öruggur aðgangur sé að gögnum sem unnt er að fá leyfi til að nýta.

META-SHARE kemur upp innviðum í mörgum lögum sem munu:

 • gera gæðatryggð málgögn og tengd lýsigögn aðgengileg innan netsins,
 • tryggja umsjón, varðveislu og viðhald slíkra málgagna og lýsigagna,
 • sjá öllum meðlimum og notendum META-SHARE fyrir margvíslegri þjónustu,
 • beita sér fyrir notkun almennt viðurkenndra staðla um gerð málgagna til að tryggja hámarkssamvirkni þeirra,
 • heimila tengdum þriðju aðilum að dreifa málgögnum sínum gegnum META-SHARE netið,
 • heimila hugsanlegum notendum málgagnanna að afla þeirra á auðveldan og löglegan hátt til eigin nota.

Gögn og tækni sem META-SHARE miðar á er í forgangsröð:

 • málleg gögn, svo sem málheildir bæði ritmáls og talmáls,
 • máltengd gögn, þ. á m. gögn sem taka til eða tengjast öðrum miðlum og miðlunarsviðum þar sem ritað eða talað mál leikur stórt hlutverk,
 • búnaður og tækni til málvinnslu og hvers kyns mörkunar,
 • þjónustur sem nýta búnað og tækni til málvinnslu,
 • búnaður, mælikvarðar og regluverk til mats, svo og þjónustur sem varða hvers kyns mat,
 • þjónustuferli sem felst í samþættingu og útfærslu samvirkrar þjónustu.

META-SHARE stefnir að því að verða gagnlegir innviðir fyrir þá sem bjóða og nýta málgögn og máltækni, og enn fremur þá sem framleiða og selja máltækniafurðir, atvinnumenn á sviði tungumála (þýðendur, túlka, sérfræðinga í staðfærslu), svo og þjóðlegar og fjölþjóðlegar gagnamiðstöðvar og gagnabrunna fyrir málgögn og máltæki, stefnumótendur á sviði máltækni bæði á þjóðlegum og fjölþjóðlegum grunni, og aðra sem styrkja og fjármagna gerð málgagna og máltækja.

META-SHARE verður opin og endurgjaldslaus þjónusta, borin uppi af stóru samfélagi notenda máltækni og þeirra sem þróa hana, byggð á dreifðu neti gagnabrunna sem verður aðgengilegt gegnum sameiginlegt viðmót. Notendur (neytendur og þeir sem leggja til gögn eða safna þeim) fá einn aðgang þar sem þeir skrá sig inn og geta þá nálgast allt sem er í neti brunnanna.

Málgögn og lýsigögn þeirra verða varðveitt í gagnabrunnum meðlimanna. Lýsigögnin verða flutt út þannig að hægt sé að leita í þeim og byggja upp efnisgrind netsins sem mun hafa að geyma lýsingar allra málgagna sem aðgengileg eru innan netsins, byggðar á lýsigögnum þeirra. META-SHARE mun sjá meðlimum fyrir ókeypis hugbúnaði til að koma upp eigin gagnabrunni.

 

Í META-SHARE þarf aðeins að smella nokkrum sinnum til að nálgast málgögnin sem óskað er eftir.