Personal tools
A Network of Excellence forging the
Multilingual Europe Technology Alliance

META-NET Strategic Research Agenda for Multilingual Europe 2020

Ótakmarkaður skilningur: Evrópa án tungumálaþröskulda

Evrópsk útsjónarsemi mun sigrast á tjáskiptamúrum í undirbúningi álfunnar fyrir næstu upplýsingabyltingu

Evrópa stendur frammi fyrir alvarlegri tjáskiptakreppu. Nýleg rannsókn META-NET, „Evrópsk tungumál á stafrænni öld“, sem kom út í fyrra í 31 bindi og fjallar um 31 tungumál, sýnir að flest evrópsk tungumál eru í „stafrænni útrýmingarhættu“; þau fá ekki nægilegan stuðning frá upplýsingatækninni til að geta lifað af í stafrænum heimi. Hin gífurlega fjölbreytni tungumála okkar er hluti af menningararfi álfunnar, en á sama tíma stendur hún einnig í vegi fyrir verslun, viðskiptum og frekari samþættingu Evrópu. Þrátt fyrir gífurlegan þýðingarkostnað er nú aðeins lítið brot mikilvægra upplýsinga í boði á öllum Evrópumálum og Evrópubúar eiga þess ekki kost að ræða mikilvæg úrlausnarefni þvert á tungumálamörk. Samskipti milli Grikkja og Þjóðverja um fjármálakreppuna fara t.d. fram í gegnum staðbundna fjölmiðla og stjórnmála-menn landanna og þær boðskiptaleiðir stuðla ekki alltaf að gagnkvæmum skilningi. Netið og félagsmiðlarnir eru um þessar mundir að gerbreyta því hvernig pólitískar ákvarðanir eru teknar en evrópskt samfélag hagnast ekki nægilega á þessum breytingum. Danir rökræða ekki við Frakka um kosti og galla kjarnorkueldsneytis annars vegar og jarðefnaeldsneytis hins vegar; Evrópubúar í löndum við Miðjarðarhaf taka ekki þátt í alþjóðlegum umræðum um mögulegar afleiðingar af sameiginlegri inn-flytjendastefnu, sem þó myndi einnig hafa áhrif á nágranna þeirra í norðri.

Til að skapa Evrópu sem er án tjáskiptamúra og styður frjálst flæði upplýsinga, hugmynda og viðskipta, en varðveitir um leið ríkidæmi og fjölbreytileika menningar og tungumála, hefur META-NET, evrópskt öndvegisnet 60 rannsóknarsetra í 34 löndum, þróað stefnumótandi rannsóknaráætlun (SRÁ; á ensku Strategic Research Agenda, SRA) sem lýsir því hvernig markviss fjárfesting í máltækni getur skapað umtalsverðan efnahagslegan ávinning sem er margfalt meiri en kostnaðurinn. Undanfarin rúm tvö ár hafa hundruð málfræðinga og tölvunarfræðinga ásamt öðrum hagsmunaaðilum tekið þátt í áætlana-gerðinni. Þetta skjal verður kynnt opinberlega og lagt fyrir fulltrúa frá framkvæmdastjórn Evrópu-sambandsins, rannsóknargeiranum og iðnaðinum á tækniráðstefnu í Berlín í Þýskalandi 25. janúar 2013.

Rannsóknaráætlunin sýnir hvernig Evrópa getur nýtt fjölbreytileika sinn í tungumálum og menningu til að skapa sér samkeppnisforskot. Evrópskt máltæknisamfélag stendur mjög framarlega í margmála tækni, bæði á sviði rannsókna og iðnaðar, og er í sterkri stöðu til að gegna forystuhlutverki í næstu byltingu upplýsingatækninnar á sviði tungumála, þekkingar og tilfinninga. Siri frá Apple og raddleitin frá Google eru bara upphafsskref á þessu sviði. Tungumálið mun verða helsta tjáskiptaaðferðin milli mannsins og tækninnar. Svo að þessi sýn verði að veruleika þarf að vera til hugbúnaður fyrir mismunandi tungumál, þjónustu og tæki, og þar verður til gríðarstór markaður. Máltækni veitir aðgang að mannlegri þekkingu á stafrænu formi sem er samsöfnuð á vefnum og í þeirri flóðbylgju gagna sem þar skellur á daglega verður hægt að leita eftir merkingu, greina efnið og nýta það í margvíslegan nýjan búnað.

Í SRÁ er mælt með því að sú samevrópska rannsóknaráætlun sem lagt er til að ráðist verði í leggi áherslu á þrjú forgangsþemu í rannsóknar- og þróunarstarfi á vegum rannsóknarstofnana og iðnaðarins:

  1. Þvermála ský veiti öllum Evrópubúum, fyrirtækjum og samtökum almenna og sérhæfða þýðingarþjónustu. Þessi þjónusta mun fela í sér hágæða, nákvæmar og áreiðanlegar sjálfvirkar þýðingar á töluðu og rituðu máli auk þess að hafa á sínum snærum þýðendur og túlka til þess að sinna þeim verkefnum sem tölvurnar einar ráða ekki við.
  2. Þemu félagsgreindar og rafrænnar þátttöku leggja áherslu á að þróa málföng til að auka skilning og umræðu innan og þvert á samfélög almennra borgara, viðskiptavina og neytenda svo hægt sé að gera rafræna samfélagsþátttöku mögulega og koma á skilvirkari aðferðum til að undirbúa, taka og meta sameiginlegar ákvarðanir.
  3. Þema félagslega meðvitaðrar og gagnvirkrar aðstoðar leggur áherslu á þróun yfirgripsmikils stafræns stoðbúnaðar sem lærir og lagar sig að aðstæðum og veitir með talsamskiptum fyrir-byggjandi og gagnvirkan stuðning sem sniðinn er að aðstæðum, staðsetningu og markmiðum notandans.

META-NET boðar einnig hönnun og þróun evrópsks þjónustuvettvangs fyrir máltækni sem ætlað er að veita notendum og viðskiptavinum hnökralausan aðgang að máltækni.

„Evrópa þarf virkilega á að halda hágæða vélþýðingarhugbúnaði milli allra Evrópumála og helstu tungumála utan álfunnar svo loksins sé hægt að brúa tungumálagjárnar. Þessar gjár skaða þau lang-tímamarkmið Evrópusambandsins að koma á fót stafrænum markaði þar sem þau hindra frjálst flæði þekkingar, upplýsinga, varnings, framleiðslu og þjónustu,“ segir prófessor Hans Uszkoreit, stjórnandi META-NET og vísindalegur stjórnandi hjá DFKI (Þýsku rannsóknarmiðstöðinni fyrir gervigreind). Dr. Georg Rehm (DFKI), annar ritstjóra SRÁ og framkvæmdastjóri META-NET bætir við: „Eftir Fukushima-slysið í mars 2011 voru kostir og gallar kjarnorku ræddir um alla Evrópu en þær umræður voru bundnar við einstök málsamfélög: aldrei hefur verið rætt um þessi mál á samevrópskum vettvangi! Tæknin sem við boðum mun gera Evrópubúum kleift að ræða slík mál þvert yfir tungumálamörk og styrkja hina evrópsku sjálfsmynd íbúanna.

Með samræmdu, stórfelldu átaki til ársins 2020 má þróa þessa tækni og undirbúa þannig evrópsk tungumál undir framtíðina, sjá almennum borgurum fyrir nýjum hugbúnaði og þjónustu og skapa fjölda nýrra tækifæra innan evrópska tungumála- og máltæknigeirans. Mikil fjárhagsleg byrði sem slíkt leggur á smærri málsamfélög, nauðsynleg yfirfærsla tækni milli tungumála, skortur á samhæfingu gagna, tóla og þjónustu og sú staðreynd að mörk tungumála eru ekki alltaf þau sömu og landamæri ríkja, kallar allt á umfangsmeiri viðbrögð en eitt land getur veitt. Þessa gífurlegu ögrun verður því að taka upp á vett¬vangi Evrópusambandsins, aðildarríkja þess og í tengdum löndum, í nánu samstarfi við atvinnulífið. SRÁ leggur til leiðarvísinn til þess að takast á við þessar ögranir þannig að það gagnist öllum Evrópu¬búum og tryggi að Evrópa taki forystuhlutverk í efnahagsmálum heimsins og á tæknimarkaðnum.

Máltækni: Bakgrunnur

Máltækni nýtist nú þegar við ýmis hversdagsleg verk, svo sem að skrifa tölvupóst eða bóka flug. Hún nýtir hugbúnað sem vinnur með talað og ritað mál. Við njótum góðs af henni þegar við leitum að vef-síðum og þýðum þær, stjórnum farsímanum okkar eða afþreyingarkerfinu í bílnum með raddstýrðum skipunum, eða lesum umsagnir í netverslunum. Í nálægri framtíð munum við geta talað við tölvuforrit svo og vélar og tæki, þar með talin þjónustuvélmenni sem bráðum verða til á heimilum okkar og vinnu-stöðum. Þegar við þurfum upplýsingar eða hjálp munum við einfaldlega biðja um það, hvar sem við erum stödd. Ef við fjarlægjum tjáskiptamúrana milli manns og tækni munum við breyta heiminum. Mál-tækni mun gera öllum kleift að vinna saman, læra, stunda viðskipti og deila þekkingu yfir tungumála¬mörk og óháð tölvufærni.

Nú byggjast máltæknikerfi fyrst og fremst á tölfræðilegum aðferðum sem krefjast óhemjumagns af rituðum og töluðum málgögnum til þjálfunar. Það er mjög erfitt að afla nægra gagna fyrir þau tungumál sem tiltölulega fáir tala. Hins vegar bendir nýleg þróun til þess að hægt sé að finna leiðir fram hjá þessari hindrun og máltækni er það svið upplýsingatækninnar sem er í hvað örustum vexti. Stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Google, Microsoft, IBM og Nuance hafa fjárfest verulega á þessu sviði. Vegna ríkrar tæknilegrar, menningarlegrar og mállegrar sérþekkingar eru Evrópubúar í lykilaðstöðu til að leiða þessa þróun og þar eru þegar hundruð smárra og meðalstórra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í marg-mála tækni og þjónustu.

Um META-NET og META

META-NET, sem er öndvegisnet 60 rannsóknarsetra í 34 löndum og stendur að nokkrum Evrópu-sambandsverkefnum, vinnur að uppbyggingu tæknilegs grunns fyrir margmála evrópskt upplýsinga-samfélag.

META-NET stendur að META, margmála evrópsku tæknibandalagi. Yfir 600 stofnanir í 55 löndum hafa nú þegar skráð sig til þátttöku og þar á meðal eru rannsóknastofnanir, háskólar og einkafyrirtæki.